
Ertu að senda rannsóknina þína til áreiðanlegs tímarits?
Er þetta viðeigandi tímarit fyrir rannsóknina þína?
- Sífellt fleiri rannsóknir eru gefnar út í heiminum
- Útgefendum fer hratt fjölgandi
- Margir rannsakendur hafa áhyggjur af rányrkjutímaritum
- Það getur verið áskorun að finna nýjustu leiðbeiningar þegar velja á hvar skal birta

Hafðu eftirfarandi atriði í huga við mat á áreiðanleika tímaritsins sem þú velur
Þekkir þú eða þínir samstarfsmenn þetta tímarit?
- Hefur þú lesið greinar úr þessu tímariti?
- Er auðvelt að finna nýjustu greinar þess?
- Svipar heiti tímaritsins til heitis annars tímarits? Er auðvelt að rugla þeim saman?
- Getur þú séð upplýsingar um tímaritið í ISSN vefgáttinni?
Geturðu auðveldlega fundið og haft samband við útgefanda?
- Er nafn útgefanda birt á vefsíðu tímaritsins?
- Er hægt að hafa samband við útgefanda í síma, tölvupósti eða bréfapósti?
Kemur skýrt fram hvernig ritrýni er háttað?
- Kemur fram á vefnum hvort ritrýniferlið tekur til óháðra/utanaðkomandi ritrýna og hversu margir ritrýna hverja grein?
- Býður útgefandinn upp á ritrýni sérfróðrar ritnefndar eða sérfræðinga á þínu fagsviði?
- Ábyrgist tímaritið samþykkt greinarinnar eða að ritrýni taki mjög stuttan tíma?
Eru greinar skráðar og/eða vistaðar hjá sérstökum þjónustuaðilum?
- Verður rannsóknaafurðin þín skráð/vistuð í þekktu og aðgengilegu gagnasafni?
- Tryggir útgefandi langtímavistun og varðveislu?
- Notar útgefandi varanleg stafræn auðkenni (DOI o.s.frv.)?
Er augljóst hvaða gjöld verða innheimt?
- Er útskýrt á vef tímarits hvernig gjöldum er varið og hvenær þau verða innheimt?
- Kemur fram hjá útgefanda hvernig tímaritið er fjármagnað/styrkt?
- Kemur fram hvaða gjaldmiðill er notaður og upphæð gjalda?
- Kemur fram hvort einhverjar undanþágur eru í boði?
Eru leiðbeiningar fyrir höfunda á vefsíðu útgefanda?
- Kemur skýrt fram hvernig höfundarétti er háttað þegar um tímarit í opnum aðgangi er að ræða? Eru einhver höfundaréttarleyfi ákjósanlegri en önnur? Eru undanþágur í boði eftir þörfum höfunda? Koma ítarlegar höfundarréttarupplýsingar fram á öllu útgefnu efni?
- Færð þú að halda höfundarrétti að verkum þínum? Máttu deila greininni þinni og setja hana t.d. í varðveislusafn stofnunar og þá með hvaða skilmálum?
- Hefur útgefandinn skýra stefnu varðandi hugsanlega hagsmunaárekstra milli höfunda, ritstjóra og ritrýnenda?
- Getur þú séð á hvaða sniði greinin þín verður? (t.d. HTML, XML, PDF).
- Veitir tímaritið tölulegar upplýsingar um notkun eða tilvitnanir?
Er útgefandinn aðili að viðurkenndum samtökum á sínu sviði?
- Er útgefandinn aðili að COPE – Committee on Publication Ethics?
- Ef tímaritið er í opnum aðgangi, er það þá skráð í DOAJ –Directory of Open Access Journals?
- Ef tímaritið er í opnum aðgangi, er útgefandinn meðlimur í OASPA Open Access Scholarly Publishers’ Association ?
- Er tímaritið hýst á einhverjum vefsetra INASP “Journals Online platforms” (fyrir tímarit útgefin í Bangladesh, Nepal, Sri Lanka, Mið Ameríku og Mongólíu) eða á vef African Journals Online (AJOL, fyrir afrísk tímarit)?
- Er útgefandinn meðlimur í öðrum atvinnugreinasamtökum?

Hafir þú getað svarað flestum eða öllum spurningum hér að ofan játandi, skaltu senda greinina inn.
- Til að styrkja orðspor þitt og auka líkur á að vísað sé í greinina þína, skaltu vera viss um að tímaritið sé viðurkennt meðal fræðimanna á þínu sviði.
- Það mun styðja við starfsferil þinn ef þú gefur rannsóknarniðurstöður þínar út í viðurkenndum tímaritum.
With thanks for this translation made by Margret Gunnarsdottir, with helpful contributions and tips from two colleagues at the National and University Library of Iceland, Hilma Gunnarsdottir and Gudrun Tryggvadottir.
This translation was published in June2022.